„Í fyrra og hittifyrra þurftu þeir ekki helminginn af þessum færum bara til þess að vinna 3:0,“ sagði Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, um gengi Englandsmeistara Liverpool í Vellinum á Símanum Sport í dag.
Liverpool missteig sig illilega um helgina í baráttunni um meistaradeildarsæti þegar liðið fékk Newcastle í heimsókn á Anfield en Joseph Willock jafnaði metin í 1:1-fyrir Newcastle á fimmtu mínútu uppbótartímans.
Áður en Willock skoraði hafði Callum Wilson komið boltanum í netið á annarri mínútu uppbótartímans en markið var dæmt af af VAR.
Liverpool fékk urmul færa til þess að gera út um leikinn í fyrri hálfleikinn en tókst ekki að nýta þau og því fór sem fór.
„Það er varla hægt að kenna einhverju sjálfstrausti um því þessir gæjar þarna eru búnir að skora og skora fyrir félagið,“ bætti Hermann við.
„Maður vorkennir honum því þessi leikmaður var óstöðvandi fyrir stuttu en núna gengur ekkert upp hjá honum,“ sagði Gylfi Einarsson um frammistöðu Sadios Manés í undanförnum leikjum.