Aymeric Laporte reyndist hetja Manchester City þegar liðið tryggði sér enska deildabikarinn í knattspyrnu gegn Tottenham í úrslitaleik á Wembley í London í dag.
Leiknum lauk með 1:0-sigri City en Laporte skoraði sigurmark leiksins á 82. mínútu.
Phil Foden fékk fyrsta færi leiksins strax á 7. mínútu þegar Raheem Sterling átti frábæra sendingu fyrir markið en Foden náði ekki að stýra boltanum í átt að marki.
Fjórum mínútum síðar átti Sterling sjálfur skot að marki Tottenham en varnarmenn Tottenham björguðu á marklínu.
Foden kom sér aftur í færi á 26. mínútu en skot hans fór af Toby Alderweireld og í stöngina.
Leikmenn City voru mun sterkari í fyrri hálfleik en tókst ekki að koma boltanum í netið og staðan því markalaus í hálfleik.
City-menn byrjuðu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og Riyad Mahrez átti nokkrar frábærar marktilraunir sem fóru annað hvort rétt fram hjá markinu eða þá að Hugo Lloris í marki Tottenham sá við honum.
Það var svo á 82. mínútu sem Kevin De Bruyne átti frábæra aukaspyrnu frá vinstri sem fór beint á kollinn á Laporte sem skallaði knöttinn í netið en leikmenn Tottenham voru aldrei líklegir til þess að jafna metin eftir að City komst yfir.
Þetta var fjórða árið í röð sem City vinnur enska deildabikarinn og í áttunda skiptið alls en City og Liverpool eru þau félög sem hafa unnið keppnina oftast.