Gylfi: „Nennir einhver að horfa á þetta?“

Gylfi Einarsson er ekki mjög hrifinn af þeirri þróun sem hefur átt sér stað í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár þar sem vel fer á með erkifjendum.

„Það vantar rosalega mikla ástríðu í meirihlutann af leikjunum. Auðvitað er Covid og engir áhorfendur að leika stórt hlutverk. Menn eru þarna að hjálpa hver öðrum upp, klappa hver öðrum, gefa háar fimmur og skiptast á treyjum í hálfleik. Nennir einhver að horfa á þetta?“ spurði Gylfi í Vellinum á Símanum Sport í gær.

„Nei, enginn,“ svaraði Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, þá.

„Getum við farið 20 ár aftur í tímann þar sem ekki voru bara toppleikir, þar sem var bara alvörurígur [í fleiri leikjum]? Í öllum liðum voru harðir gæjar. Í dag má einhvern veginn ekkert og það er náttúrulega línan sem er dregin hjá dómurum, tæklingar eru greinilega bara á útleið,“ bætti Gylfi við.

Umræðuna um horfna tíma í ensku úrvalsdeildinni í Vellinum í gær má sjá í heild sinni í spilaranum í gær, þar sem Gylfi, Tómas Þór og Hermann Hreiðarsson fara yfir þessi mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert