Eigendur enska knattspyrnufélagsins Arsenal ætla ekki að selja úrvalsdeildarliðið en sænski milljarðamæringurinn Daniel Ek, stofnandi og framkvæmdastjóri tónlistarstreymisveitunnar Spotify, hyggst leggja fram yfirtökutilboð í Lundúnaliðið.
Stuðningsmenn Arsenal hafa kallað eftir því að Kroenke-fjölskyldan selji meirihluta sinn í félaginu eftir misheppnaða tilraun til að ganga í ofurdeildina svokölluðu en þúsundir mótmæltu bandarísku auðkýfingunum fyrir utan heimavöll félagsins á dögunum.
Sky Sports greindi frá því á dögunum að Ek, með hjálp frá þremur Arsenal-goðsögnum, vilji kaupa félagið en Svíinn er mikill stuðningsmaður Arsenal. Fyrrverandi leikmennirnir þrír sem um ræðir eru þeir Thierry Henry, Dennis Bergkamp og Patrick Vieira.
Stan og Josh Kroenke hafa hins vegar gefið út yfirlýsingu þar sem þeir segjast ekki hafa áhuga á að selja félagið.