Manchester City getur með hagstæðum úrslitum um helgina tryggt sér Englandsmeistaratitilinn. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man City, segist þó ekki vilja fara fram úr sér.
Spurður á blaðamannafundi hvernig hann bæri væntanlegan titil City-manna við þá titla sem liðið hefur áður unnið undir hans stjórn svaraði Guardiola blaðamanninum á beinskeyttan hátt:
„Leyfðu mér fyrst að reyna að vinna Crystal Palace. Ekki spyrja mig að því hvernig mér mun líða þegar ég hef ekki upplifað það, af því að það hefur ekki átt sér stað.
Mér þykir það leitt. Ég veit að þú ert forvitinn að reyna að sjá þetta fyrir þér en raunveruleikinn er sá að við erum að keppa um titilinn við alvöru lið. United er stórkostlegt lið og hafa verið í sínu besta formi á tímabilinu síðustu tvo mánuði.“
Hann býst við erfiðum leik gegn Crystal Palace á morgun.
„Við þurfum fimm stig til þess að verða meistarar og á morgun höfum við frábært tækifæri til þess að taka skref í átt að því. Ef við vinnum leikinn á morgun hugsum við um hvað gerðist og ef það gerist máttu spyrja mig um hvað sem þú vilt, sérstaklega hvernig mér líður, en núna get ég ekki útskýrt tilfinningar sem ég mun upplifa í framtíðinni því ég hef ekki upplifað þær ennþá!“ bætti Guardiola við.