Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir ennþá langt í að þeir Virgil van Dijk, Jordan Henderson, Joel Matip og Joe Gomez geti farið að æfa með liðinu á ný.
Van Dijk birti í gær af sér myndskeið þar sem hann sést hlaupa í beinni línu. „Já hann er að hlaupa alveg eins og Hendo, Joel og Joe. Í endurhæfingu byrja menn alltaf á að hlaupa í beinni línu.
Menn þurfa að taka fjöldamörg skref áður en þeir eru tilbúnir til þess að vera með á liðsæfingum. Þeir eru allir talsvert frá því ennþá. Það hefur enginn sagt við mig: „Spenntu beltin, þeir munu æfa með liðinu í næstu viku“,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.
Búist er við því að fjórmenningarnir verði allir frá út tímabilið, sem lýkur í næsta mánuði, og munu þeir því ekki geta hjálpað Liverpool er það reynir að ná Meistaradeildarsæti.
Fram undan er afar erfiður leikur gegn erkifjendunum í Manchester United á Old Trafford. Tap þar gerir nokkurn veginn út um Meistaradeildarvonir Liverpool á þessu tímabili.
„Að spila í Meistaradeild Evrópu er risastórt fyrir félagið fjárhagslega. Ef við komumst ekki í hana er það ekki gott en ég held að það muni ekki breyta miklu í tengslum við sumarið þar sem knattspyrnan er nú þegar og hefur verið í erfiðri stöðu,“ sagði Klopp einnig á blaðamannafundinum.