Chelsea vann grannaslaginn

Kai Havertz fagnar öðru marki sínu og Chelsea í dag.
Kai Havertz fagnar öðru marki sínu og Chelsea í dag. AFP

Chelsea treysti stöðu sína í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar það vann þægilegan 2:0 sigur á nágrönnum sínum í Fulham í dag.

Chelsea tók forystuna eftir 10. mínútna leik. Mason Mount fékk þá langa sendingu fram, tók frábærlega við boltanum, gaf inn fyrir á Kai Havertz sem skaut að marki, í vinstri fót Alphonse Areola í marki Fulham og þaðan fór boltinn í hornið, 1:0.

Á 39. mínútu fékk Hakim Ziyech upplagt tækifæri til þess að tvöfalda forystu heimamanna þegar hann fékk flotta sendingu frá Timo Werner en Areola varði frá Ziyech.

Undir lok hálfleiksins var svo Ola Aina, bakvörður Fulham sem er uppalinn hjá Chelsea, nálægt því að jafna metin þegar skot hans fór af Reece James sem gerði Édouard Mendy í marki Chelsea erfitt um vik en hann náði að verja með naumindum.

Í hálfleik var staðan því 1:0, Chelsea í vil.

Snemma í síðari hálfleiknum tvöfaldaði Chelsea forystu sína. Þar var Havertz aftur á ferðinni, nú eftir frábæra stungusendingu Werner. Havertz stakk sér inn fyrir vörnina og lagði boltann örugglega fram hjá Areola.

Meira var ekki skoraði í leiknum og 2:0 sigur Chelsea því staðreynd.

Chelsea er áfram í fjórða sæti deildarinnar, nú sex stigum á undan West Ham United í fimmta sæti og sjö stigum á undan Liverpool í því sjötta, þótt síðarnefndu liðin tvö eigi að vísu leik til góða.

Fulham er í vondri stöðu í fallsæti, 18. sæti, níu stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert