City færist nær bikarnum

Sergio Agüero fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Sergio Agüero fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Sergio Agüero skoraði sitt annað deildarmark á tímabilinu þegar lið hans Manchester City heimsótti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Selhurst Park í London í dag.

Leiknum lauk með 2:0-sigri City en Agüero kom sínu liði yfir á 57. mínútu eftir laglegt samspil City-manna.

Benjamin Mendy átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Agüero sem tók boltann meistaralega með sér með fyrstu snertingu sinni.

Hann hamraði svo boltann upp í þaknetið með sinni annarri snertingu og staðan orðin 1:0.

Ferran Torres bætti við öðru marki City, mínútu síðar, þegar boltinn datt fyrir fætur hans rétt utan teigs og hann hamraði boltann í hornið fjær með vinstri fæti.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, hvíldi marga lykilmenn í dag en þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Agüero síðan 13. mars.

Manchester City er með 80 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur þrettán stiga forskot á Manchester United sem er í öðru sætinu og á leik til góða á City.

Crystal Palace er hins vegar í þrettánda sætinu með 38 stig, ellefu stigum frá fallsæti.

Crystal Palace 0:2 Man. City opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert