Gylfi horfir heim til Íslands

Gylfi Þór Sigurðsson skorar fyrir Everton gegn Tottenham.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar fyrir Everton gegn Tottenham. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, kveðst vera farinn að horfa heim til Íslands og hlakkar til að flytja aftur á heimaslóðirnar.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Gylfa í Sportveiðiblaðinu sem er nýkomið út í ritstjórn Gunnars Benders en þar er Gylfi á forsíðumynd með stóran lax sem hann veiddi í Grímsá. Viðtalið snýst aðallega um áhuga Gylfa á stangveiði en hann er líka spurður um framtíðaráformin og Eggert Skúlason, sem er höfundur viðtalsins, spyr hvort það sé rétt mat hjá sér að honum finnist votta fyrir heimþrá hjá Gylfa.

„Alveg smá sko. Ég flutti út þegar ég var fimmtán ára, þannig að ég er búinn að búa lengur hér úti en á Íslandi. Þannig að jú jú. Maður er búinn að vera úti í einhver sextán ár og maður er alveg farinn að hugsa fram í tímann þegar maður er hættur í boltanum og flytur heim aftur.

Ég hlakka alveg til að geta hitt fjölskyldu og vini aftur án þess að þurfa alltaf að vera að drífa sig innan einhverra tveggja vikna á hverju sumri. Ég hlakka alveg til að geta farið í veiði í rólegheitum eða kíkja í sumarbústað og vera á Íslandi í rólegheitum og ekki einhver dagur þar sem þú ert að fljúga út aftur og kemur ekki heim í marga mánuði. Já, ég hlakka mjög mikið til að koma aftur heim. Þetta hefur aðeins verið að ágerast síðustu árin og þar spilar veiðin líka sterkt inn í. Íslensk náttúra er svo ótrúleg og togar í mig,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson í viðtalinu í Sportveiðiblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert