Welbeck í aðalhlutverki í sigri Brighton

Danny Welbeck skorar laglegt mark sitt í leiknum í dag.
Danny Welbeck skorar laglegt mark sitt í leiknum í dag. AFP

Brighton & Hove Albion vann mikilvægan 2:0 sigur gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag. Sóknarmaðurinn Danny Welbeck lék afar vel í leiknum; skoraði mark og fékk vítaspyrnu.

Heimamenn í Brighton tóku forystuna eftir tæplega stundarfjórðung. Ezgjan Alioski braut þá klaufalega á Welbeck innan vítateigs með því að klemma hann nokkurn veginn og vítaspyrna réttilega dæmd.

Pascal Gross steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi í bláhornið. Illan Meslier í marki Leeds fór í rétt horn en skot Gross of gott.

Staðan í hálfleik því 1:0.

Það var svo Welbeck sem tvöfaldaði forystu Brighton seint í leiknum, á 79. mínútu, þegar Pascal Struijk átti misheppnaða hreinsun innan eigin vítateigs, Welbeck tók við boltanum, tók glæsilegan „Cruyff-snúning“ og kláraði laglega með vinstri fæti í bláhornið.

2:0 sigur Brighton því staðreynd og er hann kærkominn þar sem liðið er nú í 14. sætinu, 10 stigum frá fallsæti þegar það á aðeins fjóra leiki eftir og því langt komið með að tryggja sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert