Arsenal ekki í vandræðum með Newcastle

Pierre-Emerick Aubameyang skorar annað mark Arsenal í leiknum.
Pierre-Emerick Aubameyang skorar annað mark Arsenal í leiknum. AFP

Arsenal gerði góða ferð norður til Newcastle þegar liðið vann 2:0 útisigur gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Arsenal tók forystuna snemma leiks þegar egypski miðjumaðurinn Mohamed Elneny skoraði á sjöttu mínútu. Héctor Bellerín gaf þá fyrir á Pierre-Emerick Aubameyang, sem hitti boltann engan veginn. Boltinn barst hins vegar út til Elneny sem skoraði með laglegu skoti í bláhornið rétt innan vítateigs, 1:0.

Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Um miðjan síðari hálfleikinn tvöfaldaði Arsenal forystu sína. Þá gaf Gabriel Martinelli fasta sendingu fyrir markið á Aubameyang sem kastaði sér fram og karate-sparkaði boltann nokkurn veginn í netið af stuttu færi, 2:0.

Á 90. mínútu leiksins fékk Fabian Schär beint rautt spjald fyrir að tækla Martinelli harkalega aftan frá.

2:0 urðu lokatölur og smeygði Arsenal sér þar með aftur upp í efri helming ensku úrvalsdeildarinnar, 9. sætið.

Sigurinn var aldrei í hættu og hefði Arsenal hæglega getað bætt við fleiri mörkum á meðan Newcastle saknaði eflaust Joe Willock, sem hefur reynst liðinu drjúgur að undanförnu og er á láni frá Arsenal. Mátti hann því ekki taka þátt í leiknum.

Newcastle er hins vegar áfram í 17. sæti deildarinnar, níu stigum fyrir ofan Fulham í síðasta fallsætinu, 18. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert