Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkennir að kampavínið verði brátt opnað eftir að sigur gegn Crystal Palace í gær varð til þess að það þarf aðeins tvö stig til viðbótar til þess að fagna sigri í ensku úrvalsdeildinni.
„Við getum byrjað að huga að því að setja kampavínið í ísskápinn. Við drekkum það ekki strax en getum farið að kæla það,“ sagði Guardiola við BT Sport eftir 2:0 sigurinn í gær.
„Úrvalsdeildin er þarna innan seilingar, þetta er í okkar höndum. Við þurfum einn sigur í viðbót eða tvö stig,“ bætti hann við.
Liðið undirbýr sig nú fyrir síðari leikinn gegn París Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið fyrri leikinn 2:1 í París í vikunni. „Nú hugsum við um PSG. Það er leikur þar sem við þurfum að gefa allt sem við eigum,“ sagði Guardiola.
Man City getur orðið meistari í dag fari svo að Liverpool vinni Manchester United á Old Trafford í stórslag helgarinnar. „Við skoðum fyrri leikinn og hvað við þurfum að gera en ég mun fylgjast með leik Manchester United og Liverpool,“ viðurkenndi hann að lokum.