Síðasti séns fyrir Liverpool (myndskeið)

Matt Holland, knattspyrnusérfræðingur sem lék í ensku úrvalsdeildinni með Ipswich Town og Charlton Athletic, segir að nú sé að duga eða drepast fyrir Liverpool í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Liverpool heimsækir erkifjendur sína og nágranna í Manchester United í dag. Heimamenn í Man Utd eru á góðum stað, í öðru sæti deildarinnar, og mjög langt komnir með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Vonir Liverpool um að tryggja sér Meistaradeildarsæti fara þó þverrandi, en með sigri í dag eygir liðið þó enn von. Tapi það eru vonirnar svo gott sem úr sögunni.

„Þetta verður lífsnauðsynlegur leikur fyrir Liverpool. Á pappír er þetta líklega erfiðasti leikurinn sem þeir eiga eftir í deildinni á tímabilinu. Ef þeir fara frá Old Trafford með þrjú stig tel ég þá eiga frábæra möguleika á að enda í topp fjórum,“ segir Holland.

Hann bætir því við að Man Utd vilji ólmir halda Liverpool utan Meistaradeildarsætis og spili því vitanlega til sigurs í dag.

Bollaleggingar Hollands í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

Stórleikur helgarinnar milli Man Utd og Liverpool hefst klukkan 15.30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport. Upphitun hefst klukkan 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert