Stórleiknum frestað vegna mótmæla

Stuðningsmenn Manchester United létu öllum illum látum í dag.
Stuðningsmenn Manchester United létu öllum illum látum í dag. AFP

Knattspyrnuleik Manchester United og Liverpool sem fara átti fram í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í Manchester í dag hefur verið frestað.

Þetta staðfestu forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar á samfélagsmiðlum sínum núna rétt í þessu en fyrr í dag brutust stuðningsmenn United inn á völlinn til þess að mótmæla eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar í Manchester United.

Stuðningsmannahópur United hafði boðað til mótmæla fyrir utan völlinn í dag en 200 stuðningsmenn liðsins ákváðu svo að ganga skrefinu lengra og brjótast inn á völlinn.

Þá áttu sér einnig stað mótmæli fyrir utan liðshótel United-liðsins en ekki hefur verið ákveðin ný tímasetning fyrir stórleikinn.

Manchester City, sem er í efsta sæti deildarinnar með 80 stig, hefði getað orðið Englandsmeistari í dag ef United hefði tapað fyrir Liverpool og því ljóst að City verður ekki meistari í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert