„Hann er heimsklassa leikmaður“

Gareth Bale skoraði þrennu í gærkvöldi.
Gareth Bale skoraði þrennu í gærkvöldi. AFP

Ryan Mason, bráðabirgðastjóri Tottenham Hotspur, segir það augljóst að Gareth Bale sé ennþá heimsklassa leikmaður. Bale skoraði þrennu í gærkvöldi gegn Sheffield United.

„Ég hef alltaf sagt að Gareth Bale hefur ekki og mun ekki glata þeim eiginleikum að geta sýnt fram á afburðagæði á síðasta vallarþriðjungi. Hann er heimsklassa leikmaður, hann hefur sannað það í mörg ár,“ sagði Mason eftir leikinn í gærkvöldi.

Mörkin þrjú Bale voru enda sannarlega vottur um gæði hans fyrir framan markið að mati Masons. „Það sem ég var ánægðastur með í leiknum var viðhorfið hans, hvernig hann hljóp fyrir liðið. Maður er alltaf öruggur með það að hann muni nýta færin sín.

Þegar þú skorar þrennu og skorar á mikilvægum augnablikum færðu fyrirsagnirnar. Hann er í heimsklassa, við vitum það. Allir sem hafa horft á fótbolta síðastliðinn áratug vita hvað hann er fær um. Afgreiðslurnar hans voru framúrskarandi,“ sagði stjórinn ungi.

Aðspurður sagðist Mason ekkert vilja ræða framtíð Bale, en hann er á láni frá Real Madríd, og er óljóst hvort hann verði áfram hjá Tottenham eða snúi aftur til Spánar.

„Ég tel að það sé eitthvað sem ætti að ræða að loknu tímabili. Næsti leikur er í forgangi hjá okkur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert