Michail Antonio, framherji West Ham United, segir að liðið muni ekki gefa draum sinn um meistaradeildarsæti upp á bátinn.
„Það væri ótrúlegt. Allir vilja spila í Meistaradeild Evrópu. Ég hef verið hérna í nokkur ár og það hafa verið svo mörg tímabil þar sem við vorum að berjast fyrir sæti okkar í deildinni en nú eigum við möguleika á topp fjórum,“ sagði Antonio eftir 2:1-útisigur gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Antonio sneri aftur í lið West Ham í leiknum í gær eftir að hafa verið frá vegna meiðsla undanfarnar fjórar vikur og reyndist hetja liðsins þegar hann skoraði bæði mörkin eftir að Burnley hafði komist yfir.
Eftir sigurinn er West Ham í 5. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Chelsea í 4. sætinu. „Við munum ekki gefa drauminn upp á bátinn. Við munum halda áfram að berjast og þrýsta á um að ná sætinu,“ bætti Antonio við.
David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, tók í sama streng. „Við viljum berjast þar til í síðustu umferð og reyna að laumast inn. Við þurfum líklega að vinna alla fjóra leikina sem eru eftir.
Að komast í Evrópukeppni væri ótrúlegt afrek. Ég held að ég verði fyrir vonbrigðum ef við náum því ekki úr þessu,“ sagði hann.