Enska knattspyrnufélagið Ipswich Town sem Hermann Hreiðarsson lék með snemma á öldinni tilkynnti í morgun nýjan styrktaraðila sem auglýst gæti framan á búningum liðsins.
Styrktaraðilinn er tónlistarmaðurinn og Íslandsvinurinn Ed Sheeran sem býr í Suffolk en þar er Ipswich stærsti byggðakjarninn. Er hann knattspyrnuáhugamaður og stuðningsmaður Ipswich Town. Hefur Sheeran oftar en einu sinni sést opinberlega í íslensku landsliðstreyjunni.
Ef til vill eru tímarnir að breytast í íþróttunum en á dögunum tilkynnti Afturelding að hljómsveitin Kaleo væri styrktaraðili félagsins og merki hljómsveitarinnar yrði framan á búningum liðsins í knattspyrnunni.