Tottenham horfir til Ítalíu

Antonio Conte er á óskalista Tottenham.
Antonio Conte er á óskalista Tottenham. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham hafa sett sig í samband við Antonio Conte, stjóra Ítalíumeistara Inter Mílanó, um að taka við liðinu næsta sumar.

Það er ítalski miðillinn Corriere dello sport sem greinir frá þessu en Conte hefur stýrt liði Inter frá 2019 og gerði liðið að Ítalíumeisturum á dögunum.

Ítalski knattspyrnustjórinn, sem er 51 árs gamall, þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt Chelsea frá 2016-2018 en hann gerði liðið að Englandsmeistara á sínu fyrsta tímabili í London.

Brendan Rodgers, Julian Nagelsmann og Erik ten Hag hafa allir verið orðaður við stjórastöðuna hjá félaginu undanfarnar vikur en Rodgers hafði ekki áhuga, Nagelsmann tók við Bayern München og ten Hag framlengdi samning sinn við Ajax.

Ryan Mason var ráðinn tímabundinn stjóri Tottenham eftir að José Mourinho var rekinn í síðasta mánuði en það eru taldar litlar sem engar líkur á því að hann fái starfið til frambúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert