Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Arsenal, ræddi baráttu sína við malaríu við The Athletic á dögunum.
Framherjinn, sem er 31 árs gamall, var frá í þrjár vikur í apríl þar sem hann barðist við sjúkdóminn en hann þurfti meðal annars að leggjast inn á sjúkrahús.
Arsenal saknaði hans mikið en Aubameyang hefur skorað tíu mörk í 23 byrjunarliðsleikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
„Í fyrstu þá fann ég bara fyrir þreytu og ég var stöðugt þreyttur,“ sagði Aubameyang.
„Síðan ágerðist þetta og mér fór að líða virkilega illa eftir landsliðsverkefni með Gabon í mars.
Þetta er án alls vafa versta upplifun mín á lífsleiðinni að veikjast af þessum sjúkdómi. Ég var með mjög háan hita sem lækkaði bara ekki, sama hversu mikið magn af verkjalyfjum ég tók.
Ég missti einhver fjögur kíló en eftir að ég var lagður inn á spítala fór mér að líða betur. Fjölskylda mín hafði miklar áhyggjur af mér,“ bætti framherjinn við.