Frábær sigur Leeds á Tottenham

Rodrigo bendir í þakklætisskyni á Raphinha eftir að sá síðarnefndi …
Rodrigo bendir í þakklætisskyni á Raphinha eftir að sá síðarnefndi lagði upp mark þess fyrrnefnda. AFP

Leeds United vann sterkan 3:1 sigur þegar liðið tók á móti Tottenham Hotspur í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Leeds hóf leikinn af krafti. Á sjöundu mínútu fékk Patrick Bamford boltann inn fyrir frá Jack Harrison, kom sér í góða skotstöðu en Hugo Lloris í marki Tottenham varði vel í horn.

Á 13. mínútu tók Leeds svo forystuna. Harrison átti þá stórhættulega fyrirgjöf frá vinstri sem Sergio Reguilón var hársbreidd frá því að setja í eigið net, Lloris varði frá samherja sínum en þó aðeins skammt út í markteiginn þar sem Stuart Dallas var mættur og þrumaði boltanum af öryggi upp í þaknetið, 1:0.

Á 25. mínútu jöfnuðu gestirnir í Tottenham. Þá átti Dele Alli fullkomna stungusendingu inn á Son Heung-Min, sem tók fullkomið hlaup og setti boltann í nærhornið framhjá Illan Meslier í marki Leeds, 1:1.

Sendingin hjá Alli var algjört konfekt; hann setti boltann á milli fóta Diego Llorente og framhjá Luke Ayling í leiðinni, beint í hlaupaleið Son.

Skömmu síðar, á 31. mínútu, kom Harry Kane boltanum í netið með laglegri vippu eftir stungusendingu Son. Hann var strax dæmdur rangstæður, VAR skoðaði atvikið og ákvað að halda sig við upphaflega ákvörðun þó Kane virtist sannarlega samstíga Pascal Struijk, varnarmanni Leeds.

Það voru svo heimamenn í Leeds sem tóku forystuna að nýju skömmu fyrir leikhlé. Harrison fann þá Ezgjan Alioski í „overlappi“ innan vítateigs, Alioski gaf svo stutta sendingu með jörðinni á nærstöngina þar sem Bamford skoraði af örstuttu færi, 2:1.

Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Í síðari hálfleik voru heimamenn í Leeds áfram líklegri til þess að bæta við, þó Tottenham hafi einnig fengið sín færi.

Harry Kane komst þó nálægt því að jafna metin á 72. mínútu þegar þrumuskot hans beint úr aukaspyrnu small í þverslánni.

Á 84. mínútu gerði Leeds hins vegar út um leikinn. Þá komst liðið í frábæra skyndisókn þegar Mateusz Klich sendi varamanninn Raphinha í geg,n hann lék með boltann inn í vítateig, fann þar annan varamann, Rodrigo, einan í teignum og átti hann ekki í neinum vandræðum með að klára vel í fjærhornið, 3:1.

Það urðu lokatölur og góður sigur Leeds staðreynd.

Með sigrinum varð það ljóst að Leeds er fyrsta liðið síðan West Ham United á tímabilinu 2015/2016 sem fer taplaust í gegnum tímabil á heimavelli gegn hinum svokölluðu „stóru sex“ félögum; Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham.

Leeds fer með sigrinum upp fyrir Arsenal í 9. sæti deildarinnar. Tottenham er áfram í 6. sæti.

Patrick Bamford kemur Leeds yfir að nýju.
Patrick Bamford kemur Leeds yfir að nýju. AFP
Son Heung-Min fagnar jöfnunarmarki sínu ásamt Gareth Bale.
Son Heung-Min fagnar jöfnunarmarki sínu ásamt Gareth Bale. AFP
Stuart Dallas fagnar marki sínu ásamt Luke Ayling, fyrirliða Leeds.
Stuart Dallas fagnar marki sínu ásamt Luke Ayling, fyrirliða Leeds. AFP
Leeds 3:1 Tottenham opna loka
95. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með sterkum 3:1 sigri Leeds!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert