Enska knattspyrnufélagið Manchester United tilkynnti nú síðdegis að félagið hefði skrifað undir nýjan samning við úrúgvæska framherjann Edinson Cavani.
Samningurinn er til eins árs og rennur út í júní 2022.
Cavani hefur skorað fimmtán mörk fyrir United á þessu keppnistímabili, níu þeirra í úrvalsdeildinni, en hann kom til félagsins frá París SG í byrjun október.
Hann er 34 ára gamall og lék með París SG í sjö ár þar sem hann skoraði 138 mörk í 200 deildaleikjum en spilaði áður með ítölsku félögunum Napoli og Palermo.
Þá hefur Cavani skorað 51 mark í 118 landsleikjum fyrir Úrúgvæ og hann er þriðji leikjahæsti og næstmarkahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi.