Fyrirliðinn meiddur

Harry Maguire meiddist á ökkla í baráttu sinni við Anwar …
Harry Maguire meiddist á ökkla í baráttu sinni við Anwar El Ghazi í gær. AFP

Harry Maguire, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er meiddur á ökkla og missir af leik United og Leicester í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á morgun.

Þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, á blaðamannafundi í dag en Maguire meiddist í leik Aston Villa og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á Villa Park í Birmingham í gær.

Maguire var á sínum stað í byrjunarliði United gegn Aston Villa en var skipt af velli á 78. mínútu fyrir Eric Bailly.

Miðvörðurinn gekk til liðs við United frá Leicester, sumarið 2019, en fram að leik gærdagsins hafði hann leikið alla leiki í United í ensku úrvalsdeildinni eftir komuna til félagsins.

Óvíst er hversu lengi hann verður frá vegna meiðslanna en United mætir Liverpool á fimmtudaginn kemur á Old Trafford í leik sem Liverpool verður nánast að vinna til þess að eiga von um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert