Guardiola: Fleiri þúsund manns á bak við árangurinn

„Mér er létt og ég er ótrúlega hamingjusamur fyrir hönd ansi margra,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, eftir að liðið hafði tryggt sér Englandsmeistaratitilinn í kvöld.

Manchester Untied tapaði 2:1-fyrir Leicester á Old Trafford í Manchester fyrr í dag en sigur Leicester þýðir að United, sem er í öðru sæti deildarinnar, getur ekki náð City að stigum þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu.

Guardiola tók við stjórnartaumunum hjá City sumarið 2016 en þetta er í þriðja sinn sem hann gerir liðið að enskum meistara.

„Þetta er gríðarlegt afrek, sérstaklega ef við horfum til allra sterku liðanna sem spila í þessari deild,“ sagði Guardiola.

„Við erum alltaf að æfa og keppa og við höfum því verið í góðum takti. Frá desember og fram í mars unnum við alla leiki sem við spiluðum og þetta var algjör lykiltími fyrir okkar titilbaráttu.

Það eru leikmennirnir og knattspyrnustjórinn sem sjást í fjömiðlum en það eru fleiri þúsund manns á bak við þennan árangur okkar á tímabilinu,“ bætti Guardiola meðal annars við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert