Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, mun ekki ná síðustu leikjum tímabilsins eins og vonir höfðu staðið til.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag. Henderson meiddist á nára í 0:2 tapi gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni þann 20. febrúar síðastliðinn.
Upphaflega var búist við því að Henderson gæti tekið þátt í síðustu leikjum tímabilsins en eftir að hann fór í aðgerð á náranum var áætluðum batatíma hans seinkað um mánuð.
Því spilar hann ekki fleiri leiki fyrir Liverpool á tímabilinu en gæti hins vegar náð EM með enska landsliðinu, sem hefst eftir tæpan mánuð.