Aston Villa og Everton gerðu markalaust jafntefli á Villa Park í Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Tyrone Mings fékk besta færi Aston Villa í leiknum en skalli hans á 17. mínútu leiksins fór framhjá. Í seinni hálfleik fékk svo André Gomes, leikmaður Everton, tvö góð skotfæri en ekki náði hann að koma boltanum inn. Gomes kom inn á fyrir Gylfa Þór Sigurðsson á 67. mínútu.
Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa, kom inn á í seinni hálfleik en hann hefur verið frá vegna meiðsla síðustu tvo mánuði.
Eftir leikinn er Everton í áttunda sæti deildarinnar með 56 stig en Aston Villa er áfram í ellefta sætinu með 49 stig. Bæði lið eiga eftir að spila þrjá leiki og Everton er aðeins tveimur stigum frá fimmta sætinu þrátt fyrir jafnteflið.