Það var Liverpool sem hafði sigur í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool vann Manchester United 4:2 á Old Trafford í ansi fjörugum leik.
Þessi leikur átti að fara fram sunnudaginn 2. maí en vegna mótmæla stuðningsmanna Manchester United þurfti að aflýsa leiknum. Yfir 200 stuðningsmenn Manchester United brutust þá inn á leikvanginn en það gerðu þeir til að mótmæla eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar á félaginu.
Leikurinn byrjaði með látum og það munaði ansi litlu að Edison Cavani hefði komið Manchester United yfir strax á 6. mínútu leiksins eftir mistök Alison í marki Liverpool en skot hans fór rétt framhjá.
Fyrsta markið kom svo stuttu síðar. Bruno Fernandes átti þá skot að marki Liverpool en Nat Phillips setti fótinn í boltann og setti hann í eigið mark. Þar sem boltinn var mjög líklega á leiðinni á markið hjá Bruno Fernandes fær hann markið skráð á sig.
Aðeins örfáum mínútum síðar dæmdi Anthony Taylor vítaspyrnu á Eric Bailly en eftir að skoðað atvikið betur ákvað hann að breyta dómi sínum og því fékk Liverpool ekki vítaspyrnu. Leikmenn Liverpool létu það ekki slá sig út af laginu og náðu að jafna metin á 34. mínútu en þar var á ferðinni Diogo Jota en hann náði að koma boltanum framhjá Dean Henderson með laglegri hælspyrnu.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fékk svo Liverpool aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Manchester United. Trent Alexander-Trent tók spyrnuna og hitti beint á kollinn á Roberto Firmino sem skallaði boltann í netið.
Í seinni hálfleik hélt svo fjörið áfram. Strax á 47. mínútu komst Liverpool í 3:1 en aftur var það Roberto Firmino sem skoraði en markið kom eftir klaufagang í vörn Manchester United.
Marcus Rashford náði að minnka muninn á 68. mínútu en hann fékk þá góða sendingu inn fyrir frá Cavani og Rashford kláraði þetta afar vel.
Leikmenn Manchester United gerðu allt sem þeir gátu til að skora jöfnunarmarkið en eftir skyndisókn á 90. mínútu náði Liverpool að gulltryggja sigurinn en þá skoraði Mo Salah gott mark eftir sendingu frá Curtis Jones.
Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni síðan í mars 2014. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Liverpool en liðið á ennþá möguleika á því að enda í einu af fjórum efstu sætunum í deildinni sem þýðir auðvitað sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.
Liverpool er í fimmta sæti deildarinnar með 60 stig en liðið á eftir að spila þrjá leiki í deildinni. Chelsea er í fjórða sætinu með 64 stig og Leicester er í þriðja sætinu 66 stig en bæði þessi lið eiga tvo leiki eftir í deildinni. Chelsea og Leicester mætast í næstu viku og sá leikur mun skipta miklu máli í baráttunni um þriðja og fjórða sætið í deildinni.
Manchester United er áfram í öðru sæti deildarinnar en liðið er með 70 stig.