Sadio Mané, sóknarmaður Liverpool, hefur af mörgum verið gagnrýndur fyrir framkomu sína eftir sigurinn gegn Manchester United á Old Trafford, 4:2, í gærkvöld.
Mané var ekki í byrjunarliði Liverpool en kom inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum. Eftir leikinn þegar knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp þakkaði sínum mönnum fyrir vel unnin störf og góðan sigur neitaði Mané að taka í höndina á honum og virtist hreyta einhverju í stjórann.
Klopp vildi sem minnst gera úr þessu eftir leikinn. „Nei, þetta er ekkert vandamál. Ég ákvað seint á síðustu æfingunni að vera með Diogo Jota í byrjunarliðinu. Strákarnir eru vanir því að ég útskýri hlutina en ég hafði ekki tíma til þess í þetta sinn. Það var allt og sumt, þetta er ekkert mál," sagði Klopp við Sky Sports.
Graeme Souness, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Liverpool, sem nú er lýsandi á Sky Sports, var ekki sama sinnis. „Þetta er virðingarleysi. Ég varð aldrei fyrir svona nokkru en ef ég hefði verið í sporum stjórans hefði ég ekki verið sáttur. Hann átti að taka í hönd hans, þú verður að sýna virðingu. Þetta er fyrst og fremst virðingarleysi gagnvart félaginu," sagði Souness á Sky Sports.