Hirti met af Frank Lampard

Bruno Fernandes í leiknum gegn Liverpool í gær en United …
Bruno Fernandes í leiknum gegn Liverpool í gær en United tapaði honum að lokum 2:4. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Bruno Fernandes sló í gærkvöld met í ensku úrvalsdeildinni þegar hann skoraði fyrsta markið í leik Manchester United og Liverpool á Old Trafford.

Í fyrstu var talið að um sjálfsmark hjá Nat Phillips hefði verið að ræða en nú hefur verið úrskurðað að Fernandes hafi skorað. Hann hefur þar með gert 28 mörk á keppnistímabilinu, í öllum mótum, og enginn annar miðjumaður hefur afrekað það frá stofnun úrvalsdeildarinnar árið 1992.

Frank Lampard, sem lengst af lék með Chelsea, skoraði 27 mörk fyrir Lundúnaliðið keppnistímabilið 2009-10 og Yaya Touré skoraði 24 mörk fyrir Manchester City veturinn 2013-14.

Fernandes getur enn bætt við mörkum því United á eftir að mæta Fulham og Wolves í úrvalsdeildinni og Villarreal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert