Englandsmeistarar Manchester City unnu Newcastle á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld, 4:3, í afar fjörlegum leik.
Emil Krafth kom Newcastle yfir á 25. mínútu en Joao Cancelo og Ferrán Torres sneru taflinu við með tveimur mörkum á þremur mínútum undir lok hálfleiksins. Joelinton jafnaði hins vegar metin fyrir Newcastle með marki úr víti á sjöttu mínútu uppbótartímans í fyrri hálfleik.
Joe Willock, lánsmaður frá Arsenal, kom Newcastle aftur yfir á 62. mínútu. Hann brenndi þá af á vítapunktinum en tók frákastið sjálfur og skoraði. Scott Carson stóð í marki City, en hann er 35 ára lánsmaður frá Derby í B-deildinni.
Meistararnir gáfust ekki upp og sérstaklega ekki áðurnefndur Ferrán Torres því Spánverjinn jafnaði metin á 63. mínútu og skoraði sigurmarkið aðeins tveimur mínútum síðar og fullkomnaði í leiðinni þrennuna sína.
City er nú með 13 stiga forskot á Manchester United í öðru sæti og Newcastle í 16. sæti með 39 stig.