Crystal Palace vann frábæran 3:2 endurkomusigur gegn Aston Villa á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. Eftir að hafa verið marki undir í hálfleik kom sigurmark Palace seint í leiknum.
Fyrri hálfleikurinn var fullur af fjöri. Gestirnir í Aston Villa tóku forystuna á 17. mínútu leiksins þegar skoski miðjumaðurinn John McGinn skoraði með laglegu afar hnitmiðuðu innanfótarskoti fyrir utan teig sem fór í stöngina og inn, 0:1.
Eftir rúmlega hálftíma leik jafnaði fyrrverandi Villa-maðurinn Christian Benteke metin með góðum skalla eftir fyrirgjöf Tyrick Mitchell frá vinstri, 1:1.
Örskömmu síðar, á 34. mínútu, náði Villa forystunni á ný. McGinn gaf þá fyrir frá hægri, Cheikhou Kouyaté skallaði boltann hátt upp í loft, Ollie Watkins hafði betur gegn Gary Cahill í skallabaráttunni í kjölfarið og kom boltanum á Anwar El Ghazi sem skoraði auðveldlega af stuttu færi, 1:2.
Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var ekki síður fjörugur.
Palace náði að jafna metin öðru sinni á 76. mínútu. Wilfried Zaha fékk þá góða stungusendingu inn fyrir frá Eberechi Eze, lék inn að teig, þrumaði að marki og boltinn fór af Ahmed El Mohamady og í netið. Líklega var um sjálfsmark Egyptans að ræða og staðan orðin 2:2.
Á 84. mínútu komust heimamenn í Palace svo yfir í fyrsta skipti í leiknum. Eze átti þá misheppnað sem Mitchell hljóp á eins og gammur og stýrði boltanum í netið með öxlinni, 3:2. Um var að ræða fyrsta mark Mitchell á ferlinum.
Það urðu lokatölur og góður sigur Palace staðreynd.
Hvorugt lið hefur að miklu að keppa nú þegar enska úrvalsdeildin er að klárast. Eftir leikinn er Palace í 13. sæti með 44 stig og Aston Villa í því 11. með 49 stig.