Harry Kane var á skotskónum fyrir Tottenham þegar liðið fékk Wolves í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Tottenham Hotspur-völlinn í London í dag.
Leiknum lauk með 2:0-sigri Tottenham en Kane kom Tottenham yfir undir lok fyrri hálfleiks.
Það var svo Pierre-Emile Höjberg sem tvöfaldaði forystu Tottenham með marki á 62. mínútu og þar við sat.
Tottenham fer með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar í 59 stig, einu stigi minna en Liverpool, en Liverpool á leik til góða á Tottenham.
Tottenham er með fjórum stigum minna en Chelsea sem er með 64 stig í fjórða sæti deildarinnar sem jafnframt gefur sæti í Meistaradeild Evrópu en bæði lið hafa leikið 36 leiki.
Wolves siglir lygnan sjó í tólfta sæti deildarinnar með 45 stig.