Swansea er í góðum málum í einvígi sínu gegn Barnsley í undanúrslitum í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 1:0-útisigur í fyrri leik liðanna í kvöld.
André Ayew skoraði sigurmarkið á 39. mínútu í annars frekar tíðindalitlum leik, en Barnsley komst óvænt í umspilið. Swansea er í umspilinu annað tímabilið í röð.
Sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Brentford eða Bournemouth í úrslitaleik á Wembley en Bournemouth vann heimaleik einvígisins fyrr í dag, 1:0.