Chelsea með örlögin í eigin höndum

Wesley Fofana og Timo Werner eigast við á Stamford Bridge.
Wesley Fofana og Timo Werner eigast við á Stamford Bridge. AFP

Chelsea er komið í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir gríðarlega mikilvægan sigur gegn Leicester á Stamford Bridge í London í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Chelsea sem var mun betri aðilinn allan leikinn.

Chelsea kom boltanum tvívegis í netið í fyrri hálfleik en mörkin fengu ekki að standa og staðan því markalaus í hálfleik.

Það var svo Antonio Rüdiger sem kom Chelsea yfir í upphafi fyrri hálfleiks eftir frábæra hornspyrnu Ben Chilwell en Rüdiger var gapandi frír í markteignum og ýtti boltanum auðveldlega yfir línuna af stuttu færi.

Jorginho bætti við öðru marki Chelsea á 66. mínútu eftir að Wesley Fofana hafði brotið klaufalega á Timo Werner innan teigs og vítaspyrna dæmd en Jorginho skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni.

Kelecho Iheanacho minnkaði muninn fyrir Leicester á 76. mínútu með viðstöðulausu vinstri fótar skoti úr teignum eftir að Wilfred Ndidi hafði unnið boltann djúpt á vallarhelmingi Chelsea.

Ayoze Pérez fékk frábært tækifæri til þess að jafna metin fyrir Leicester í uppbótartíma þegar hann fékk frítt skot úr teignum en boltinn fór hátt yfir markið.

Chelsea fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 67 stig á meðan Leicester er með 66 stig í fjórða sæti deildarinnar.

Liverpool er í fimmta sætinu með 63 stig og getur jafnað Leicester að stigum og skotist upp fyrir þá á morgun þegar liðið heimsækir Burnley.

Chelsea 2:1 Leicester opna loka
90. mín. Ayoze Pérez (Leicester) á skot framhjá FÆRI! Boltinn berast á Pérez í miðjum teignum en skotið afleitt og fer yfir markið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert