Brighton vann óvæntan sigur á nýkrýndum Englandsmeisturum í knattspyrnu, Manchester City, á heimavelli sínum í kvöld, 3:2.
Ilkay Gündogan skoraði þó strax á annarri mínútu fyrir City en liðið missti hins vegar Joao Cancelo af velli með rautt spjald á 10. mínútu.
Tíu leikmenn City virtust þó vera að sigla heim góðum sigri eftir að Phil Foden bætti við marki á 48. mínútu.
En aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Leandro Trossard fyrir Brighton og Adam Webster jafnaði metin á 72. mínútu, 2:2. Það var svo Daniel Burn sem skoraði sigurmark Brighton á 76. mínútu, 3:2.
City er samt tólf stigum á undan grönnum sínum Manchester United fyrir lokaumferðina um næstu helgi, er með 83 stig gegn 71. Brighton lyfti sér upp í fimmtánda sætið með sigrinum og er með 41 stig.