Frank Lampard er efstur á óskalista forráðamanna enska knattspyrnufélagsins Crystal Palace um að taka við liðinu af Roy Hodgson í sumar. Það er talkSport sem greinir frá þessu.
Hodgson, sem er orðinn 73 ára gamall, hefur stýrt Crystal Palace frá árinu 2017 en samningur hans við félagið rennur út í sumar.
Crystal Palace siglir lygnan sjó í þrettánda sæti deildarinnar með 44 stig en talið er samningur Hodgson hjá félaginu verði ekki endurnýjaður.
Lampard, sem er 42 ára gamall, var rekinn frá Chelsea í lok janúar á þessu ári, eftir að hafa tekið við liðinu sumarið 2019.
Lampard hefur einnig stýrt liði Derby á stjóraferli sínum þar sem hann náði góðum árangri en hann hefur verið án starfs síðan í janúar.