Manchester United mistókst að tryggja sér annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar Fulham kom í heimsókn á Old Trafford í Manchester í dag.
Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en United komst yfir snemma leiks áður en Fulham jafnaði metin í síðari hálfleik.
Það var Edinson Cavani sem kom United yfir strax á 15. mínútu með stórkostlegu marki.
David de Gea spyrnti boltanum þá frá marki, Bruno Fernandes hælaði Cavani í gegn, og Úrúgvæinn lyfti boltanum snyrtilega yfir Alphonse Aréola í marki Fulham af 40 metra færi.
Joe Bryan jafnaði metin fyrir Fulham á 76. mínútu með föstum skalla á fjærsvæðinu eftir laglega fyrirgjöf Bobby Reid frá hægri og lokatölur því 1:1.
United er áfram í öðru sæti deildarinnar með 71 stig, 5 stigum meira en Leicester, sem á leik til góða og mætir Chelsea eftir skamma stund. Fulham er hins vegar með 28 stig í átjánda sæti deildarinnar og fallið um deild.
United mætir Wolves í lokaumferðinni og þarf stig til þess að tryggja sér annað sæti deildarinnar eins og sakir standa.