Thomas Tuchel knattspyrnustjóri Chelsea sagði eftir sigurinn á Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld að lið sitt hefði með honum stigið stórt skref í átt að sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.
Chelsea hefur tvær leiðir til að komast í keppnina. Annars vegar að enda í einu af fjórum efstu sætum úrvalsdeildarinnar, og hins vegar að vinna Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðar í þessum mánuði.
Chelsea er nú með 67 stig fyrir lokaumferðina og Leicester 66 í fjórða sætinu. Liverpool er með 63 stig í fimmta sæti en á leik til góða gegn Burnley annað kvöld. Tvö þessara liða fylgja Manchester-liðunum tveimur í Meistaradeildina.
„Þetta er stórt skref en samt er það bara skref. Þetta er ekki í höfn, við þurfum að ýta okkur yfir strikið á sunnudaginn,“ sagði Tuchel við fréttamenn eftir leikinn en þá á Chelsea útileik við Aston Villa, Leicester á heimaleik við Tottenham og Liverpool á heimaleik við Crystal Palace.
Chelsea náði í kvöld að hefna fyrir ósigurinn gegn Leicester, 0:1, í úrslitaleik bikarkeppninnar á Wembley síðasta laugardag.
„Þetta var gríðarlega sterkur sigur liðsheildar og einkenndist af ákveðni, hungri og metnaði. Við sýndum mikil gæði í leik sem við unnum að mínu mati afar sanngjarnt. En þetta er ekki stundin til að fagna, ekki tíminn til að hrósa. Það er ekki tími til að hugsa um meira en þessi þrjú stig. Þetta voru jú bara þrjú stig og við þurfum önnur þrjú á sunnudaginn, og verðum að vera tilbúnir til að ljúka verkinu,“ sagði Þjóðverjinn enn fremur.
Chelsea lék frammi fyrir áhorfendum á Stamford Bridge í fyrsta skipti síðan Tuchel tók við liðinu eftir áramótin. „Fótbolti með áhorfendum er allt önnur íþrótt en fótbolti án áhorfenda. Það er ekki hægt að bera þetta saman. Þetta var magnað, og akkúrat það sem við viljum, við viljum að allir sem koma á völlinn verði ánægðir og finni kraftinn sem er í þessu liði því svona getur liðið alltaf spilað,“ sagði Tuchel.