Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool ætla að bjóða Virgil van Dijk, varnarmanni félagsins, nýjan langtímasamning. Það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu.
Liverpool vill sjá leikmanninn ljúka ferlinum á Anfield en hann gekk til liðs við Liverpool frá Southampton í janúar 2018 og hefur verið lykilmaður í liðinu síðan.
Van Dijk, sem er 29 ára gamall, er á meðal bestu miðvarða í heiminum í dag en hann meiddist illa á hné í október á síðasta ári og hefur verið frá síðan.
Fjarvera Van Dijks hefur haft mikil áhrif á lið Liverpool sem hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit síðan hann meiddist.
Hann er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2023 en forráðamenn Liverpool eru sagðir ætla að bjóða honum 200.000 pund á viku laun en það samsvarar um 35 milljónum íslenskra króna á viku.
Van Dijk hefur leikið 130 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað þrettán mörk en hann hefur orðið Englands- og Evrópumeistari á tíma sínum á Anfield.