Enska knattspyrnufélagið Watford hefur gengið frá samningi við Ashley Fletcher og kemur hann til félagsins fyrir næstu leiktíð. Watford tryggði sér á dögunum sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir eitt tímabil í B-deildinni.
Fletcher, sem er 25 ára, er uppalinn hjá Manchester United en hann samdi við West Ham árið 2016. Hann lék 16 leiki með Hömrunum í ensku úrvalsdeildinni en tókst ekki að skora.
Hann hefur leikið með Middlesbrough í B-deildinni allar götur síðan og skorað 19 mörk í 92 deildarleikjum.