Klopp: City hefði ekki unnið deildina heldur

Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er sannfærður um að nýkrýndir Englandsmeistarar Manchester City hefðu ekki unnið deildina með jafn marga lykilmenn meidda og hjá Liverpool.

Varnarmaðurinn öflugi Virgil van Dijk meiddist illa á hné strax í fimmtu umferð úrvalsdeildarinnar og hefur ekki spilað síðan en félagi hans í vörninni, Joe Gomez, meiddist þremur vikum síðar. Allt er þegar þrennt er og missti Liverpool þriðja miðvörðinn um áramótin, Joel Matip, er hann meiddist einnig illa.

Úr varð ómerkileg titilvörn en Liverpool, sem varð meistari á síðasta ári, situr í 4. sæti deildarinnar, 17 stigum frá City þegar ein umferð er eftir. „Fótboltalið er eins og hljómsveit, þar sem margir vinna saman. Ef þú missir einn, þá geturðu kannski spilað áfram en ef þú missir tvo er staðan orðin erfið,“ sagði Þjóðverjinn geðþekki á blaðamannafundi sínum í dag.

Liverpool er öruggt um meistaradeildarsæti á næstu leiktíð takist liðinu að vinna Crystal Palace í lokaumferðinni á morgun. Klopp hefur gefið í skyn að það myndi vera góður endir á erfiðu tímabili og jafnvel frábært afrek, miðað við vandræðin á liðinu. „Eins góðir og þeir eru, ef City hefði misst þrjá miðverði þá hefði liðið ekki unnið deildina, sama með Manchester United. Þannig hefur staðan verið hjá okkur næstum allt tímabilið og ekkert lið hefði þolað þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert