Bandaríska vonarstjarnan Christian Pulisic hefur verið einn af lykilmönnum enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea á tímabilinu en hann ræddi við Tómas Þór Þórðarson um stórleikina tvo gegn Leicester.
Chelsea mátti þola tap gegn Leicester í úrslitum enska bikarsins um síðustu helgi en svo mættust liðin aftur í vikunni í deildinni, þá í gríðarlega mikilvægum leik í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu. Pulisic og félagar náðu þar að hefna fyrir tapið í bikarnum og jafnframt fara langt með að tryggja sér eitt af efstu fjórum sætum deildarinnar.
„Þetta var mikilvægur leikur fyrir okkur, sérstaklega eftir vonbrigðin um helgina. Við þurftum sigur til að vera í efstu fjórum sætunum og komum okkur því í góða stöðu með því að vinna,“ sagði Pulisic við Tómas og bætti við að Chelsea hafi spilað vel í úrslitaleiknum, því hafi ekki verið neitt óðagot á leikmönnum liðsins fyrir seinni viðureignina.
„Við spiluðum vel að mörgu leyti í bikarúrslitunum án þess að hlutirnir féllu með okkur. Þannig að við vorum fullir sjálfstrausts og að fá stuðningsmennina aftur til að styðja okkur hjálpaði.“
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan en bandaríski knattspyrnumaðurinn fer um víðan völl og ræðir tíma sinn hjá Chelsea.