Sneru taflinu við og fara á Wembley

Vitaly Janelt skoraði eitt af þremur mörkum Brentford í dag.
Vitaly Janelt skoraði eitt af þremur mörkum Brentford í dag. Ljósmynd/Brentford

Brentford leikur til úrslita á Wembley um sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir 3:1-sigur á Bournemouth í undanúrslitum umspilsins í dag. Bournemouth vann fyrri viðureignina á sínum heimavelli, 1:0, og náði forystunni í Brentford í dag.

Bour­nemouth féll úr deild þeirra bestu á síðustu leiktíð en virtist skrefi nær því að snúa þangað aftur eftir að Arnaut Danjuma skoraði sigurmark liðsins í fyrri leiknum gegn Brentford í vikunni. Hann kom svo gestunum í 1:0-forystu strax á 5. mínútu í dag og Bournemouth því samanlagt 2:0 yfir.

Ivan Toney jafnaði metin og kom heimamönnum aftur inn í einvígið með marki úr vítaspyrnu á 16. mínútu og vont versnaði fyrir Bournemouth þegar Chris Mepham fékk beint rautt spjald á 28. mínútu fyrir að brjóta sem aftasti varnarmaður.

Heimamenn gengu svo á lagið eftir hlé, Vitaly Janelt kom þeim í 2:1 á 50. mínútu og jafnaði þar með einvígið áður en Marcus Forss skoraði á 81. mínútu það sem reyndist sigurmarkið, Brentford vann samanlagt 3:2.

Brentford er því á leiðinni í úrslitaleikinn á Wembley þar sem liðið mætir annaðhvort Swansea eða Barnsley. Swansea vann fyrri leik liðanna á útivelli, 1:0, en þau mætast aftur klukkan 17:30 í dag. Þetta er annað árið í röð sem Brentford kemst í úrslit en í fyrra tapaði liðið gegn Fulham í úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert