Senegalinn Edouard Mendy gæti misst af úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir að hann fór meiddur af velli í leik Chelsea og Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.
Mendy meiddist í fyrri hálfleik og mætti ekki til leiks í seinni hálfleik. Kepa Arrizabalaga leysti Mendy af hólmi og hann gæti þurft að standa á milli stanganna er Chelsea mætir Manchester City í úrslitaleiknum næstkomandi laugardag.
Markvörðurinn hefur leikið 30 leiki með Chelsea á þessari leiktíð eftir að hann kom til enska félagsins frá Rennes og staðið sig mjög vel. Hann á að baki 10 landsleiki fyrir Senegal.