Gabriel, brasilískur varnarmaður Arsenal, varð fyrir því óhappi að missa framtönn þegar liðið kvaddi landa hans David Luiz eftir 2:0 sigur gegn Brighton & Hove Albion á Emirates-vellinum í gær.
Luiz yfirgefur Arsenal þegar samningur hans við liðið rennur út í sumar og eitthvað fór úrskeiðis eftir leikinn í gær þegar hann var kvaddur með virktum og Gabriel endaði á því að fá handlegg í andlitið.
Gabriel þurfti að eyða drykklangri stund í að leita að tönninni á vellinum, sem vakti mikla kátínu liðsfélaga hans. Nokkrir aðilar úr starfsliði Arsenal slógust svo í för við leitina en að lokum gáfust þeir allir upp.
Í dag bárust hins vegar fréttir af því að tönnin væri fundin og vonast Gabriel nú til þess að fær tannlæknir geti komið henni á sinn stað við fyrsta tækifæri.