Argentínski knattspyrnustjórinn Marcelo Bielsa hafði betur gegn Pep Guardiola og David Moyes í valinu um hver væri besti stjóri ensku úrvalsdeildarinnar.
Að minnsta kosti eru lesendur BBC á því máli en Bielsa, sem stýrði nýliðum Leeds til 9. sætis á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeildinni, fékk 37% atkvæða í kjöri um knattspyrnustjóra ársins. David Moyes var hársbreidd frá því að koma West Ham í Meistaradeild Evrópu en náði þó 6. sæti sem gefur þátttöku í Evrópudeildinni. Hann var annar í kjörinu með 30% atkvæða.
Pep Guardiola gerði Manchester City að Englandsmeisturum með miklum yfirburðum en verður þó að láta sér þriðja sætið duga, Spánverjinn fékk ekki nema 12% atkvæða. Brendan Rodgers hjá Leicester og Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United fengu svo 8 og 6 prósent hvor um sig.