Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Wolves hafa fundið arftaka Nuno Espirito Santo en Portúgalinn lét af störfum sem knattspyrnustjóri liðsins eftir lokaumferð tímabilsins í gær.
Það er íþróttafréttamaðurinn Fabrizio Romano sem greinir frá því að úlfarnir eru í viðræðum við Bruno Lage sem einnig er frá Portúgal en sá þjálfaði síðast lið Benfica í heimalandinu.
Espirito Santo tók við Wolves árið 2017 og fór með liðið upp úr B-deildinni og upp í ensku úrvalsdeildina. Undir hans stjórn endaði Wolves í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar tímabilið 2018/19 og tryggði sér fyrir vikið sæti í Evrópukeppni í fyrsta sinn frá árinu 1980. Ekki gekk eins vel síðustu tvö tímabil og endaði liðið í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 45 stig.
Lage er 45 ára og hefur áður starfað á Englandi en hann var aðstoðarþjálfari hjá Sheffield Wednesday frá 2015 til 2017.