Vill uppfræða mann sem beitti hann kynþáttaníði

Rio Ferdinand í leik með Manchester United á sínum tíma.
Rio Ferdinand í leik með Manchester United á sínum tíma. AFP

Rio Ferdinand, sparkspekingur hjá BT Sport og fyrrverandi knattspyrnumaður, varð fyrir kynþáttaníði í gær þegar hann var að vinna að lokaleik hans gamla liðs, Manchester United á útivelli gegn Wolverhampton Wanderers.

Stuðningsmaður Úlfanna, 31 árs gamall karlmaður, beindi apahljóðum að Ferdinand og var rekinn úr stúkunni á Molineux-vellinum. Var hann svo handtekinn og er nú í haldi lögreglu.

Ferdinand sagði eftir leik, sem Man Utd vann 2:1, í beinni útsendingu á BT Sport að hann myndi gjarna vilja hitta manninn undir fjögur augu og fræða hann um hvernig það sé í raun að verða fyrir kynþáttaníði.

„Ég vil endilega hitta strákinn og uppfræða hann aðeins. Að refsa fólki án fræðslu er ekki leiðin fram á við,“ sagði hann.

Ferdinand skrifaði einnig á twitter-aðgangi sínum:

„Það hefur verið stórkostlegt að sjá aðdáendur snúa aftur á vellina. En ég er með skilaboð til stuðningsmanns Úlfanna sem var hent af vellinum fyrir að beina apahljóðum að mér.

Það verður að fjarlægja þig frá knattspyrnu og fræða þig. Komdu og hittu mig og ég mun hjálpa þér að skilja hvernig það er að vera beittur kynþáttaníði!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert