Hollenski knattspyrnumaðurinn Georginio Wijnaldum er að ganga til liðs við stórlið Barcelona á Spáni. Það er Fabrizio Romano, fréttamaður hjá Sky Sports, sem greinir frá þessu.
Samningur Wijnaldum við Liverpool rennur út 30. júní en það varð ljóst eftir lokaleik Liverpool gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina að Wijnaldum væri á förum.
Wijnaldum, sem er þrítugur að árum, var í viðræðum við Liverpool um nýjan samning allan síðasta vetur en samkvæmt Sky Sports voru forráðamenn Liverpool bara tilbúnir að bjóða honum tveggja ára samning.
Hjá Barcelona fær hann hins vegar þriggja ára samning en Bayern München hafði einnig mikinn áhuga á hollenska miðjumanninn.
Wijnaldum gekk til liðs við Liverpool frá Newcastle sumarið 2016 og varð meðal annars Englands- og Evrópumeistari með liðinu á tíma sínum í Bítlaborginni.