Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er afar hreykinn af liði sínu eftir að það tryggði sér þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Í byrjun mars var Liverpool í áttunda sæti eftir að hafa tapað sex heimaleikjum í deildinni í röð. Liðið tók sig hins vegar rækilega saman í andlitinu og vann átta og gerði tvö jafntefli í síðustu 10 leikjunum í úrvalsdeildinni.
„Þetta er stórkostlegur hópur og það er það góða við hann. Á öllum erfiðu tímunum var enginn að benda á hvern annan og segja: „Þetta er út af þessu eða hinu.“ Við fórum bara í gegnum þetta.
Þetta var erfitt en við fórum í gegnum þetta og hér erum við komnir. Ef þú gefst ekki upp áttu alvöru möguleika og þetta var aldrei ár þar sem við hefðum getað orðið meistarar, vandamál okkar voru of mörg,“ sagði Klopp í samtali við heimasíðu Liverpool.
„En hverjum er ekki sama? Það verða að vera önnur markmið og við enduðum í þriðja sæti í þessari ótrúlega sterku deild, það er klikkað! Það er þriðji besti árangurinn í deildinni síðan ég kom hingað, þannig að það er ekki sérlega slæmt! Ég er mjög ánægður,“ bætti hann við.
Meiðslavandræði Liverpool voru með nokkrum ólíkindum á tímabilinu. Þrír aðalmiðverðir liðsins meiddust illa og voru allir frá út tímabilið. Jordan Henderson fyrirliði missti af síðustu þremur mánuðum tímabilsins, Naby Keita var meiddur stóran hluta tímabilsins og Diogo Jota var frá í þrjá mánuði. Þannig mætti áfram telja.
„Svona var árið, alltaf endalausar áhyggjur af einhverju! En hér erum við að lokum, í þriðja sæti. Ég á engin orð yfir það, það er algjörlega ótrúlegt. Ég hefði aldrei veðjað krónu á það en hér erum við,“ sagði Klopp einnig.