Rauða spjaldið dregið til baka

César Azpilicueta fekk beint rautt spjald um helgina.
César Azpilicueta fekk beint rautt spjald um helgina. AFP

Knattspyrnumaðurinn César Azpilicueta fékk beint rautt spjald í leik liðs hans Chelsea gegn Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar um liðna helgi. Chelsea áfrýjaði dómnum og hefur enska knattspyrnusambandið nú dregið spjaldið til baka.

Azpilicueta fékk spjaldið fyrir að slá Jack Grealish, leikmann Aston Villa, seint í leiknum, sem Chelsea tapaði 1:2.

Forsvarsmenn Chelsea ákváðu að áfrýja rauða spjaldinu þar sem þeim þótti sem Azpilicueta hefði óvart slæmt hönd sinni í andlit Grealish.

Enska knattspyrnusambandið gekkst við þeim rökum og því þarf spænski varnarmaðurinn ekki að hefja næsta tímabil á því að taka út þriggja leikja bann.

Azpilicueta er einn af þeim 24 leikmönnum sem voru valdir í lokahóp Spánar fyrir EM sem hefst í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert